10.6.2010 | 11:19
Samkomulag opið í alla enda
Feykir hefur nú birt samkomulag um samstarf Framsóknarflokks og Vg í Sveitarstjórn Skagafjarðar á kjörtímabilinu og er þar drepið á fjölmörgum framfaramálum. Það sem vekur óneitanlega athygli er hversu orðalagið um framkvæmdir og endurbætur við Árskóla er loðið og opið í alla enda. Í því samhengi er vert að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir hátíðlega í meirihlutasáttmála við Samfylkinguna árið 2006 að framkvæmdum við Árskóla yrði lokið á kjörtímabilinu 2006 2010..Nú fjórum árum síðar lýsir Framsóknarflokkurinn því yfir að það eigi að hefjast handa við endurbætur og sömuleiðis eigi að áfangaskipta verkefninu til þess að það skapist svigrúm til þess að endurmeta og endurskoða og hanna upp á nýtt viðbyggingu við Árskóla.Frjálslynd og óháð í Skagafirði leggja áherslu á að farið verði strax í eðlilegt viðhald og endurbætur á skólamannvirkjum en beðið verði með stórframkvæmdir þar til að rekstur sveitarfélagsins verði kominn í jafnvægi. Flestir ættu að geta tekið undir að það sé hvorki hagkvæmt né skynsamleg leið að ráðast í stórframkvæmdir upp á vel á annan milljarð með það að leiðarljósi að hanna mannvirki og endurmeta framkvæmd á byggingartíma. Á síðustu vikum og mánuðum hefur sveitarstjórnarfulltrúar Vg, einmitt margvarað í bókunum í sveitarstjórn Skagafjarðar að varhugavert sé að fara út í stórframkvæmdir við núverandi aðstæður í fjármálum sveitarfélagsins. Það verður óneitanlega fróðlegt að fylgjast með rökstuðningi sömu fulltrúa fyrir kúvendingu. Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.