Verndum störf og velferð í Skagafirði

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagslífi á síðustu misserum. Góðærið sem tekið var að láni kvaddi skyndilega og við tóku tímar sem gera auknar kröfur til ráðdeildar stjórnenda.  Sveitarstjórnin sem nú er að fara frá, skilar sveitarfélaginu í óumdeilanlega í mun verri fjárhagslegri stöðu en þegar hún tók við.  Tap á rekstri sveitarfélagsins er gríðarlegt á kjörtímabilinu eða vel á sjöunda hundrað milljóna króna, sem svarar til þess að tapið á rekstrinum hafi verið hátt í fimm hundruð þúsund krónur á hverjum einasta degi, og að sama skapi hefur sveitarstjórnin verið dugleg við að bæta við skuldum eða um það bil einni milljón á dag sem hún hefur ráðið.

Í stað þess að horfast í augu við alvarlega stöðu, þá hefur Fjórflokkurinn tekist á um hversu hratt eigi að auka skuldir og fara í framkvæmdir sem ekki er fjárhagslegt bolmagn fyrir. Í stað þess að ræða leiðir til úrbóta er þröng staða fegruð. Reikningar sveitarfélagsins fyrir árið 2009 bera með sér að endar hafi verið nokkuð langt frá því að ná saman, en tapið var um 250 milljónir. Þrátt fyrir mikið tap þá er því haldið fram í sömu reikningum að hrein eign sveitarfélagsins hafi vaxið um 600 milljónir króna. Hvernig má það vera kann einhver að spyrja? Svar sveitarstjórnar Skagafjarðar er að eignir hafi verið endurmetnar hærri en áður hefur verið gert og er það á sama tíma og fasteignir landsmanna hafa fallið um tugi prósenta í verði.

Fyrir íbúa Skagafjarðar skiptir það afar miklu máli að jafnvægi náist sem allra fyrst í rekstri sveitarfélagsins, en fjárhagsleg hagsæld er forsenda fyrir opinberri þjónustu og velferð.  Það gefur auga leið að langframandi og aukinn hallarekstur og skuldasöfnun, sem sum stjórnmálaöfl bjóða uppá, er bein ávísun á harkalegan niðurskurð.

Við í Skagafirði höfum orðið vitni að stórækum, tilviljunarkenndum og ósanngjörnum niðurskurði ríkisstjórnar Vg og Samfylkingarinnar sem er bein afleiðing af andvaraleysi og skuldasöfnun þjóðarbúsins.  Hér er gott að búa og mikil tækifæri á margvíslegum sviðum til að gera gott betra.  Vísasta leiðin til þess að vernda störfin, tryggja uppbyggingu og vernda áframhald á góðri þjónustu er að tryggja fjárhagslegan grunn sveitarfélagsins.

Hrefna Gerður Björnsdóttir

í 2. sæti Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði

Sigurjón Þórðarsson

í 1. sæti Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband