Framtíð Skagafjarðar

Mikilvægt finnst okkur að ungt fólk setji sig inní stjórnmálaumræður sveitafélagsins. Skuldir og framtíðarplön sveitarfélagsins eru okkar arfleifð, því er mikilvægt að kynna sér stefnuskrár flokkanna og mynda sér skoðun. Þegar við félagarnir byrjuðum að kynna okkur þessi mál, komumst við að því að skuldir sveitafélagsins eru mjög miklar. Okkur finnst augljóst að stórframkvæmdir sem skila engum pening til baka, mun bara skuldsetja sveitafélagið enn frekar. Þótt það líti vel út, að bæta við menningarhúsi og byggja við grunnskólann, þá kemur það niður á okkur seinna meir, þar sem skuldirnar skrifast bara á langan lista. Ef þessi skuldalisti fer upp úr öllu valdi mun það vera í okkar verkahring, þ.e.a.s. unga fólksins, að greiða þessar skuldir. Þetta var ein af aðal ástæðum þess að við völdum frjálslynda flokkinn, þar sem forgangsatriði er að koma jafnvægi á fjárhaginn. Til að tryggja störf og koma í veg fyrir róttækan niðurskurð er einmitt lykilatriði að ná jafnvægi í fjármálum. Möguleikar sveitafélagsins eru fjölmargir og setjum við í forgang að framkvæma hluti sem skilar störfum og pening.

Að taka þátt í stjórnmálaumræðum og setja sig inní málin er mjög spennandi og gefandi fyrir ungt fólk. Nýliðun er einn af grunnþáttum framþróunar og er gott að byrja sem fyrst ef áhugi er fyrir hendi. Ferskar og nýjar hugmyndir gefa flokknum byr undir báða vængi, og finnst okkur framtíðin vera björt. Við viljum hafa framkvæmdir í gangi í okkar sveitarfélagi en gæta þarf að tímasetningunni. Þegar búið er að tryggja undirstöður fjármála sveitarfélagsins, þá fyrst er hægt að skoða möguleika á stórframkvæmdum. Vilji okkar er að bæta framtíðarhag sem flestra og nýta alla möguleika sem fjörðurinn hefur uppá að bjóða.

Það er spennandi að hugsa um framtíðina og láta sig dreyma hvernig sveitafélag okkar getur orðið  í framtíðinni. En það er nákvæmlega það sem fólk þarf að gera, skoða hvaða leiðir eru í boði og einmitt að koma með hugmyndir.

Það má víst alltaf gera betur og við í frjálslynda flokknum munum svo sannarlega gera allt sem í okkar valdi stendur til að byggja grunn að glæsilegri framtíð Skagafjarðar.

Ingvar Björn Ingimundarson

í 3. sæti Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði

Oddur Valsson

í 5. sæti Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband