27.5.2010 | 09:56
Hver er fjárhagsstaða Skagafjarðar?
Eitt af því sem við ættum að hafa lært af hruninu er að almenningi hefur reynst það afar dýrkeypt þegar stjórnmálamenn fegra eða neita horfast í augu við bersýnilega alvarlega stöðu í fjármálum hins opinbera.Sveitarfélagið Skagafjörður glímir við talsverðar skuldir sem margt bendir til að eigi eftir að reynast æ þyngri baggi að bera þegar fram líða stundir. Ýmsar ástæður eru fyrir skuldsetningu sveitarfélagsins og eru sumar hverjar góðar og gildar en aðrar ekki, eins og gengur.Eitt ætti flestum ábyrgum aðilum að vera ljóst að algert óráð er að skuldsetja sveitarfélagið enn frekar eins og virðist vera helsta krafa núverandi meirihluta í sveitarstjórn Skagafjarðar, og svo einkennilega sem það nú hljómar eitt helsta kosningaloforð hans. Í umræðum á opnum fundum í Varmahlíð og Skagafirði hafa fulltrúar meirihlutans flækt og fegrað fjárhagsstöðu sveitarfélagsins í brattri röksemdarfærslu fyrir því að skuldsetja sveitarfélagið enn frekar.Hver er raunveruleg fjárhagsleg staða sveitarfélagsins Samkvæmt ársreikningi 2009 er kostnaðurinn af skuldum sveitarfélagsins 320 milljónir króna og sömuleiðis var tap á rekstri sveitarfélagsins 252 milljónir króna, þar af var tap A-hlutans samtals um 166 milljónir króna. Skuldirnar munu vaxa umtalsvert á árinu 2010 vegna leikskólabyggingar sem nú er verið að reisa á Sauðárkróki.Flestir ættu að sjá að algert óráð er að lofa kjósendum enn frekari skuldabyrði þegar núverandi rekstur nær ekki endum saman. Réttara væri ef til vill að kalla slík fyrirheit hótun en loforð.Frjálslynd og óháð munu ekki styðja stórframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins fyrr en að jafnvægi hefur náðst í fjármálum sveitarfélagsins. Vísasta leiðin til þess að vernda störfin, tryggja uppbyggingu og áframhald á góðri þjónustu er að tryggja fjárhagslegan grunn sveitarfélagsins. Lærum af reynslunni og látum skynsemina ráða.Sigurjón Þórðarson í fyrsta sæti Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.